Heitasti dagur ársins

Þegar svo hlýtt er úti er vinsælt að kæla sig …
Þegar svo hlýtt er úti er vinsælt að kæla sig í sundlaugum landsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hitinn í Reykjavík í dag hefur farið upp í 22 gráður og þar með er dagurinn sá hlýjasti á höfuðborgarsvæðinu í ár. Sunnan- og vestanlands hafa menn heldur ekki farið varhluta af hlýindunum og fór hitinn kl. 15 upp í 23 stig á Þingvöllum og við Hjarðarland í Biskupstungum.

Haraldur Eiríksson á Veðurstofu Íslands sagði ástæðu hitans vera þá að lægð væri fyrir sunnan landið og háþrýstisvæði yfir Skandinavíu. Við værum því að fá hlýtt loft frá Vestur Evrópu.

Að sögn Haraldar mun blíðan haldast hér eitthvað áfram og er hlýindum spáð vel fram eftir næstu viku.

Einhver rigning verður í kvöld eða í nótt en ætti að vera yfirstaðin í fyrramálið. Sömuleiðis er spáð skúrum öðru hvoru næstu daga.

„Við eigum líka eftir að sjá eitthvað til sólar, mér sýnist hún muni rífa af sér skýin á morgun og brosa eitthvað framan í okkur,“ sagði Haraldur.

Spáin er því ljómandi góð fyrir næstu daga: Hlýtt, smá skúrir öðru hvoru og sólin ætti að brjótast reglulega fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert