Norðmenn sitja nú stoltir í efsta sæti Big Mac vísitölunnar, sem breska tímaritið Economist reiknar út árlega. Hafa Norðmenn náð efsta sætinu af Íslendingum sem oftast hafa verið afar ofarlega á listanum. Nú er Ísland í 3.-4. sæti ásamt Dönum en á eftir Norðmönnum, Svíum og Svisslendingum.
Í vísitölunni er borið saman verð á Big Mac-hamborgaranum víða um heim. Samkvæmt henni er gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal 67% hærra en það ætti að vera, þ.e. ef Big Mac kostaði jafnmikið og í Bandaríkjunum. Þetta hlutfall er hins vegar 121% í Noregi, 79% í Svíþjóð og 78% í Sviss.
Gengislækkun krónunnar undanfarið hefur haft talsverð áhrif en fyrir ári var gengi íslensku krónunnar 131% hærra en það ætti að vera samkvæmt Big Mac vísindum Economist.
Tímaritið segir vísitöluna sýna, að evrópskir gjaldmiðlar séu dýrir um þessar mundir en asískir ódýrir. Ódýrustu hamborgararnir eru í Hong Kong, Malasíu og Kína.