Allir mótmælendur á vegum samtakanna Saving Iceland eru nú farnir úr húsi Landsvirkjunar við Háaleitisbraut. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Reykjavík voru um fjórtán mótmælendur í anddyri hússins þegar flest var og hlekkjuðu nokkrir þeirra sig saman.
Lögregla var kölluð á staðinn en hafði lítil sem engin afskipti af fólkinu, samkvæmt upplýsingum varðstjóra lögreglu, þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins sáu ekki ástæðu til að amast við því.
Fyrir klukkan átta í morgun voru tveir einstaklingar á vegum samtakanna handteknir við heimili Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar. Höfðu þeir barið hús að utan og verið með háreisti auk þess sem þeir neituðu að veita lögreglu umbeðnar persónuupplýsingar. Fólkið hefur verið í yfirheyrslum í dag en samkvæmt upplýsingum lögreglu verður því sleppt innan skamms.