Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu, að reglugerð þar sem kveðið er á um hve mikið magn af varningi ferðamenn og farmenn mega taka með sér inn í landið án þess að greiða tolla, hafi ekki lagastoð.
Þrír farmenn kvörtuðu til umboðsmanns yfir því, að samkvæmt reglugerð mættu þeir ekki taka eins mikinn tollfrjálsan varning, svo sem áfengi og tóbak, inn í landið og farþegar með flugvélum eða skipum.
Umboðsmaður segir í áliti sínu, að ráða megi það af gildandi tollalögum, að löggjafinn hafi ákveðið að veita fjármálaráðherra verulegt svigrúm til að ákvarða hámarkstollfrelsi varnings í reglugerð og þar með hvert skyldi vera efnislegt inntak þess tollfrelsis sem löggjafinn hefði ákveðið. Hafi löggjafinn í raun framselt ráðherra vald til að ákvarða inntak og umfang þess tollfrelsis sem ferðamenn og farmenn nytu á hverjum tíma vegna innflutnings varnings samkvæmt tollalögum.
Komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu, að ákvæði tollalaga samrýmdist ekki ákvæðum stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að ekki sé heimilt að fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Mæltist umboðsmaður til þess að fjármálaráðherra brygðist við þessari niðurstöðu og þar með því áliti umboðsmanns að umrædda reglugerð skorti nægjanlega lagastoð, með því að leggja það til að lagaákvæðið yrði endurskoðað á vettvangi Alþingis. Umboðsmaður ákvað einnig að vekja athygli Alþingis á álitinu.