Segja borgarstjóra fara með rangt mál

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Svandís Svavarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúar VG, segja að borgarstjóri verði að una því að heilindi hans séu dregin í efa. Hann fari að auki með rangt mál í yfirlýsingum sínum varðandi Kárahnjúkavirkjun.

Yfirlýsing þeirra er eftirfarandi:

„Á dögunum voru þau boð látin út ganga frá skrifstofu borgarstjórans í Reykjavík að heilindi hans skuli ekki dregin í efa. Í lýðræðisþjóðfélagi, þar sem skoðanafrelsi á að ríkja, verður jafnvel borgarstjórinn í Reykjavík að sæta því að málflutningi hans sé mótmælt og jafnvel heilindin í efa dregin.

Í yfirlýsingu borgarstjóra frá í dag, vegna Bitruvirkjunar, segir borgarstjóri m.a: „R listinn samþykkti á sínum tíma þátttöku Reykjavíkurborgar í Kárahnjúkavirkjun." Borgarstjóra hlýtur að vera fullljóst að þessi fullyrðing stenst ekki. Kárahnjúkavirkjun var samþykkt í borgarstjórn með 9 atkvæðum gegn 5 en einn fulltrúi sat hjá. Borgarfulltrúar úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki (8 talsins) auk þáverandi borgarstjóra, núverandi formanns Samfylkingarinnar, samþykktu ábyrgð borgarinnar á virkjuninni. Báðir borgarfulltrúar úr Vinstri grænum, tveir borgarfulltrúar úr Samfylkingu auk núverandi borgarstjóra greiddu atkvæði gegn virkjunni. Rétt skal vera rétt.

Málflutningur borgarstjóra einkennist ekki af „heilindum" þegar hann hagræðir sannleikanum í því skyni að varpa dýrðarljóma á sjálfan sig."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka