Embætti forseta Íslands fjármagnar alfarið ferð forsetans á Ólympíuleikana í Peking í næsta mánuði. Með í för verður forsetafrúin og forsetaritari. Það sama gildir um ferð menntamálaráðherra, en ráðuneytið stendur straum af kostnaði. Frá ráðuneytinu fer einnig ráðuneytisstjóri auk maka beggja.
Ekki er um opinbera heimsókn forsetans að ræða svo ekki var þörf á samráði við ráðherra þegar tekin var ákvörðun um ferð á leikana. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, verður við setningarathöfn leikanna þann 8. ágúst. „Á sínum tíma þá færði ég Beijing Foreign Studies University stóra og mikla bókagjöf í kjölfar þess að tekin var ákvörðun um að hefja þar íslenskukennslu. Ég mun því nota tækifærið og heimsækja skólann. Við verðum samt í Peking fyrst og fremst á þeim grundvelli að styðja okkar íþróttafólk. Ég er mjög stolt af okkar fólki og það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað það eru margir keppendur frá Íslandi,“ segir Þorgerður Katrín.
Aðspurð hvort til greina hafi komið að sniðganga setninguna í mótmælaskyni segir Þorgerður það aldrei hafa verið inni í myndinni. „Ég tel að Ólympíuleikarnir séu ekki rétti vettvangurinn til þess að gagnrýna mannréttindabrot. Gagnrýnin hefði átt að vera miklu meiri þegar ákveðið var að leikarnir yrðu í Peking. Samræður við Kínverja hafa meiri áhrif. Það má ekki gera Ólympíuleikana að einhverjum sirkus. Með þessu er maður samt ekki að samþykkja mannréttindabrot, enda á að fordæma þau hvar sem þau viðgangast,“ segir Þorgerður.