Týndur hestur fannst í Þýskalandi

Hestar á spretti í Bæjaralandi í Þýskalandi.
Hestar á spretti í Bæjaralandi í Þýskalandi.

Sæunn Oddsdóttir á Steinum í Stafholtstungum lánaði hest sinn, Baldur til hestaferðar fyrir um þremur árum en gekk erfiðlega að fá hann aftur.

Fram kemur í blaðinu Skessuhorni, að sá sem fékk hestinn að láni þóttist ekki finna hann í girðingunni hjá sér og neitaði að leyfa Sæunni að leita í haganum.

Eftir um þriggja ára baráttu við að fá hestinn til baka komst Sæunn að því að maðurinn hefði látið örmerkja hestinn, breytt nafni hans, rangættað hann og selt hann til Þýskalands þar sem hann er enn í dag enda er bannað að flytja hesta hingað til lands vegna smithættu.

„Ég gat bara ekki þolað að láta þetta eiga sig,” segir Sæunn við blaðið en hún hefur fengið hest sinn bættan eftir nokkuð hark. Maðurinn sem fékk hann lánaðan hafði selt hann strax að hestaferðinni afstaðinni. Það sem varð honum að falli var að sú ætt, sem hann hafði gefið upp fyrir hestinn, getur ekki gefið af sér bleikálótt afkvæmi líkt og Baldur.

Kaupandi hestsins í Þýskalandi samþykkti síðar að tekið væri DNA stroka til ætternisgreiningar og staðfestu niðurstöður hennar svo ekki verður um villst að þarna var hesturinn Baldur á ferð.

Skessuhorn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert