Vaxandi offita íslenskra gæludýra

Reuters

Flest íslensk gæludýr eru yfir kjörþyngd en 15-20 prósent þeirra eru of feit og fer vandinn vaxandi, að sögn Önnu Jóhannesdóttur dýralæknis.

„Fólk vanmetur það oft hvað dýrin eru feit af því að það hugsar umframþyngdina í kílóum en ekki í hlutfalli við stærð dýrsins,“ segir hún og nefnir sem dæmi chihuahua-hunda. „ Ef slíkur hundur fitnar um eitt kíló er hann orðinn þriðjungi of feitur.“

Helga Finnsdóttir dýralæknir segir mikilvægt að gæludýraeigendur fái faglega fræðslu um daglega fóðrun. Miða þurfi fóðurmagn við aldursskeið dýrsins, stærð og vinnu, hvort sem um er að ræða hvolpafulla tík eða kettlingafulla læðu. „Tíkur með hvolpa þurfa annað fæði og hundur sem er í mikilli vinnu þarf fleiri hitaeiningar en sá sem lifir letilífi,“ segir hún.

Helga segir dýr ekki kunna sér magamál og sé dýrið lystugt, hreyfi sig lítið og eigandinn skammti því ekki miðað við daglega þörf og leiðbeiningar á fóðurpokum sé meiri hætta á offóðrun og tengdum vandamálum. „Offóðrun hefur engan ávinning. Hún er bæði slæm fyrir dýrið og pyngju eigandans,“ bætir hún við.

Dýralæknar ráðleggja eigendum of feitra dýra að auka hreyfingu og draga úr fóðurmagninu. Jafnframt er til svokallað léttfóður og sérstakt megrunarfóður fyrir dýrin, en hið seinna er ekki mikið notað, að sögn dýralækna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert