Deildi stríðsleyndarmáli með Churchill á Íslandi

Winston Churchill ásamt breskum hermönnum í Reykjavík.
Winston Churchill ásamt breskum hermönnum í Reykjavík.

Breti nokkur segir frá því í viðtali við breskt héraðsfréttablað, að hann hafi deilt stríðsleyndarmáli í Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra Breta, í sex klukkustundir árið 1941 á Íslandi.

Rætt er við manninn, sem heitir Geoff Thompson og er 88 ára, í blaðinu Knaresborough Post. Hann var loftskeytamaður í breska setuliðinu í Reykjavík þegar Churchill kom í stutta heimsókn hingað til lands 16. ágúst. Breski forsætisráðherrann var þá að koma frá fundi, sem hann átti með Franklin Roosevelt, Bandaríkjaforseta, á herskipum á Atlantshafi þar sem þeir gerðu m.a. svokallaðan Atlantshafssáttmála um hlutverk Bandaríkjamanna í ófriðinum.

Eftir að Churchill gekk til náða kom skeyti frá bandarískum stjórnvöldum, sem merkt var afar áríðandi og aðeins fyrir augu forsætisráðherrans. Þar var staðfest, að Bandaríkin myndu taka við hersetunni á Íslandi af Bretum.

„Þegar ég fékk þessi boð til Winstons Churchills hefði ég átt að fylgja hefðbundnum vinnureglum og koma boðunum til yfirmanns míns. En hann var farinn að sofa. Svo ég fór að kofa Churchills og þar tók á móti mér aðstoðarmaður hans, sem sagði mér að hann myndi koma boðunum áleiðis. En ég sagðist aðeins myndi afhenda forsætisráðherranum þau í eigin persónu," segir Thompson.

„Klukkan var um það bil 2 að nóttu og Churchill kom til dyra í náttsloppnum. Ég man, að hann var minni en ég hélt og var fölur og greinilega örþreyttur. Hann las boðin og það kom glampi í augun á honum. Hann sagði: Þetta eru góðar fréttir. Þakka þér kærlega fyrir."

Síðan snéri Churchill sér við í dyrunum og hélt aftur inn. Enginn annar sá skeytið fyrr en klukkan 9 morguninn eftir og því voru þeir Thompson og Churchill einu Bretarnir, sem vissu um málið fram að því. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert