Eldsneytiskostnaður Strætisvagna Akureyrar verður um 30% hærri er ráð var fyrir gert í kostnaðaráætlun. Kostnaður hafði verið ríflega áætlaður. Um 130% farþegaaukning hefur orðið hjá SVA frá því að strætó varð ókeypis fyrir tveimur árum. Þetta kemur fram hjá fréttavefnum Vikudegi.
Stefán Baldursson, framkvæmdastjóri, segir að eldsneytiskostnaður strætisvagnanna hafi verið á bilinu 11 til 12 milljónir króna í fyrra og fyrir þetta ár hafi menn talið að 14,5 milljónir myndu duga. Allt stefnir hins vegar í að eldsneytiskosnaður verði tæpar 20 milljónir króna í ár. Að auki segir hann öll aðföng hafa hækkað, aðkeypt þjónusta, flutningskostnaður, varahlutir, hjólbarðar svo eitthvað sé talið.
Þetta er annað árið sem ókeypis er í strætó á Akureyri og nemur aukning farþega á þeim tíma um 130%. Gert er ráð fyrir að sú þróun haldi áfram, einkum í ljósi hækkandi verðs á eldsneyti.
Meira á Vikudegi.