Fasteignamarkaðurinn vaknar

„Það er greinilegt að það stefnir í að júlímánuður verði heldur stærri hjá okkur en mánuðirnir á undan, bæði hvað varðar fjölda útlána og útlán í krónum talið,“ segir Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.

Hann gerir ráð fyrir að afnám stimpilgjalda og hækkun hámarkslána sjóðsins skýri aukninguna. Nákvæmar tölur um aukninguna segir hann ekki hægt að gefa upp fyrr en eftir mánaðamótin næstu. „En það er sýnilegt að það hefur lifnað yfir markaðnum.“

Áhyggjur af greiðslugetu

Hann segir sýnilega aukningu í ásókn í greiðsluerfiðleikaaðstoð frá því í fyrra, en sjóðurinn býður meðal annars upp á umsóknir um frystingu lána, lánalengingu og skuldbreytingar hjá þeim sem hafa þegar lent í vanskilum.

Frysta lán af óseldum íbúðum

Sjóðurinn hefur brugðist við með því að gefa þeim sem í þeim aðstæðum eru kost á að sækja um frest á greiðslum vegna lána sem hvíla á íbúð sem er í sölu. „Þá þurfa þeir að framvísa samningi sem sýnir að þeir hafi verið að kaupa nýja eign og sýna okkur söluyfirlýsingu frá fasteignasölum um að þeir séu að reyna að selja hina eignina,“ segir Guðmundur.

Samkvæmt embætti sýslumannsins í Reykjavík hafa nauðungarsölur ekki aukist milli ára. Það sem af er ári hafa 74 fasteignir verið seldar nauðungarsölu á vegum embættisins, en á sama tíma í fyrra voru þær 94. Í júnímánuði einum voru nauðungarsölur þó 23, samanborið við 15 í fyrra.

Í hnotskurn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert