Mikið er um að vera á landinu í dag, þessa helgi sem aðrar í sumar. Nánast allir landsfjórðungar hafa upp á eitthvað að bjóða. Veðrið á að leika við landsmenn eitthvað fram eftir helgi og því upplagt að leggja land undir fót. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Hér verður stiklað á því helsta sem um er að vera á landsbyggðinni í dag:
Á Tálknafirði er hátíðin Tálknafjör og er þetta í þriðja sinn sem þessi hátíð er haldin. Þungamiðja hátíðarinnar er í dag en þá verður meðal annars gönguhátíðin Svartfuglinn, strandblak, tónleikar, dorgveiði og kaffihúsakvöld. Fyrir yngri kynslóðina er boðið upp á pínu golf og hoppikastala. Um kvöldið verður svo diskótek. Hátíðinni lýkur á morgun sunnudag með messu í Tálknafjarðarkirkju.
Á Húsavík eru Mærudagar og taka þeir við af Sænsku dögunum sem lauk í vikunni. Á Mærudögum er boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Þar verður meðal annars í dag hraðfiskimót, strandbolti, latabæjarhlaup, leiksýningin Galdrakarlinn í Oz, kraftakeppni, hestasýning, fornbílasýning og fjölskylduhátíð með ýmsum uppákomum. Á morgun verður söguganga, Mærukapphlaup fyrir börnin og garðaskoðun.
Hér má sjá dagskrá Mærudaga.
Á Ögri við Ísafjarðardjúp verður hið árlega Ögurball haldið samkomuhúsinu við Ögurbæinn í kvöld. Þar mun dúettinn Halli og Þórunn spila sveitaballatónlist og ballgestur boðið upp á rabarbaragraut með rjóma í boði Maríu húsfreyju í Ögri. Löng hefð er fyrir ballinu og er talið að fyrsta ballið hafi ekki byrjað seinna en árið 1926. Böllin lágu niðri um nokkurt skeið en árið 1998 var það endurvakið. Ballið hefur verið vel sótt og fólk tjaldar gjarnan á tjaldstæðinu við samkomuhúsið. Allur ágóði rennur óskiptur til viðhalds og uppbyggingar samkomuhússins í Ögri.
Á Hvammstanga er nú Unglistahátíðin Eldur í Húnaþingi og fer hún fram í félagsheimili staðarins. Hátíðin hefur farið fram árlega síðan 2003. Skipuleggjendur eru ungt fólk úr Húnaþingi vestra og er því breytilegt hverjir skipuleggja hátíðina frá ári til árs. Í dag verður meðal annars skrúðganga, karnival, hestasýning og böll fyrir börn og svo fullorðna á eftir. Á morgun verður sundlaugarball, koddaslagur og tónleikar.
Hér má sjá dagskrá hátíðarinnar.
Á Fáskrúðsfirði standa yfir Franskir dagar. Þar verður meðal annars ekta Fransmaður í safninu Fransmenn á Íslandi, íklæddur frönskum sjóarafötum. Segir hann gestum frá þeim tíma er landar hans voru hér við veiðar. Þá munu franskir Veraldarvinir elda franska rétti og bjóða gestum upp í dans í dag. Þá verða tónleikar með feðgunum Bergþóri Pálssyni og Braga Bergþórssyni ásamt Þóru Fríðu Sæmundsdóttur píanóleikara. Í dag verður sömuleiðis minningarhlaup, fjölskylduhátíð, línudans, trjónubolti, harmonikkudansleikur, ball og fleira. Á morgun sunnudag verður til dæmis Fáskrúðsfjarðarhlaup, leikritið Soffía mús, ævintýrastund og lokahátíð.
Dagskrá hátíðarinnar.
Á Seyðisfirði má fara á Smiðjuhátíðina og er það Tækniminjasafn Austurlands sem stendur fyrir henni. Er hér á ferðinni fræðandi fjölskylduhátíð. Þar verður hægt að sjá eldsmíði, spuna úr hrosshárum, hnífasmíði, málsmsteypu og físibelgjagerð. Í kvöld verður svo Bryggjuball þar sem harmonikkan fær að njóta sín. Matur verður alla daga á safnasvæðinu og er hann af hefðbundnu tagi, hangikjöt með öllu verður til dæmis aðalrétturinn á morgun.
Dagskrá hátíðarinnar
Á Vopnafirði eru Vopnafjarðardagar. Er það margvísleg dagskrá að venju. Í dag er til dæmis útiskemmtun á plani Miklagarðs þar sem Söngvaborg kemur meðal annars fram. Einnig verður þar fjölskylduskemmtun og dansleikur með hljómsveit Siggu Beinteins. Á morgun verður léttmessa í Vopnafjarðarkirkju þar sem Ellen Kristjáns og Eyþór Gunnarsson taka þátt. Molakaffi verður á eftir messu. Gönguhátíðin Svartfugl stendur þar sömuleiðis yfir og er boðið upp á mismunandi gönguferð alla dagana en hún stendur yfir 24. – 27.júlí.