Listasýningin Mínir menn stendur nú yfir á Sólheimum í Grímsnesi. Þar sýnir Einar Baldursson, eins og nafn sýningarinnar bendir til, myndir af sínum mönnum. Sýningin hefur hlotið fádæma viðtökur og aðsókn. Á aðeins tíu dögum seldust myndir og keramik-verk Einars nánast upp en þau eru á níunda tug. Biðlisti er eftir fleiri verkum.
Mínir menn eru hluti af árlegri Menningarveislu Sólheima 2008 en hún er nú haldin í þriðja sinn og hefur vaxið ásmegin með hverju ári.
Einar Baldursson hefur búið á Sólheimum síðan 1988 og þar fengist við marga og mismunandi iðju. Hann hefur fengist við smíðar, kertagerð, íþróttir, vefnað, leirsmíði, leiklist og kórsöng en það var ekki fyrr en nýlega sem færni hans á sviði myndlistar uppgötvaðist. Það hófst með því að starfsmaður á Sólheimum fann fyrir tilviljun litla teikningu af manni eftir Einar í leirgerðarstofunni. Þótti starfsmanninum mikið til hennar koma og fór það svo að Einar tók til við teikna „sína menn“ í stórum stíl.
Hann er afkastamikill en myndirnar 83 eru allar málaðar á þessu ári. Hann teiknar myndirnar alfarið sjálfur en nýtur aðstoðar starfsmanna við að mála þær og að auki við að glerja og mála leirverkin.
Einar er að vonum hæstánægður með hve vel sýningunni og listaverkum hans hefur verið tekið. Haft er á orði að ný stjarna sé fædd á Sólheimum. Á myndinni má sjá Einar við nokkur verka sinna og Ágúst Þorvald Höskuldsson stelast inn á sjónsviðið.