„Það hefur ranglega verið haft eftir mér að mér lítist mjög illa á vinningstillöguna,“ segir Ólafur F. Magnússon borgarstjóri um fyrirhugaða byggingu Listaháskóla Íslands (LHÍ) á svokölluðum Frakkastígsreit í miðbæ Reykjavíkur. „Hún þarf hinsvegar að laga sig að þeim kröfum sem borgin gerir til götumyndar Laugavegarins.“
„Okkur er mjög annt um að fá þessa starfsemi í miðborgina, teljum að hún styrki og efli svæðið og mannlífið þar. Þó er það alveg skýrt af hálfu meirihlutans í Reykjavík að við ætlum að vernda gamla götumynd Laugavegarins enda er það eitt af aðalatriðunum í okkar málefnasamningi.“ Ólafur segir að stuðning sé að finna innan minnihlutans í borgarstjórn við að varðveita götumynd svæðisins og telur hann mögulegt að samræma tillöguna betur götumyndinni. Að sögn Ólafs er næsta skref að skoða tillöguna vel í skipulagsráði borgarinnar. ylfa@mbl.is
„Aðstandendur samkeppninnar hafa átt í góðum samskiptum við skipulagsráð og treysta því að tillaga að breyttu deiliskipulagi fái faglega, málefnalega og ítarlega umfjöllun í ráðinu.“ Þá kemur fram að dómnefndin hafi tekið fullt tillit til sjónarmiða skipulagsyfirvalda í sinni vinnu en leitað var eftir tillögu sem upphæfi söguleg einkenni borgarhverfisins.