Vígvæðing á Hornströndum

„Það eru bara ráðnar hreindýraskyttur á 30 þúsund kall á dag,“ segir Friðrik Jóhannsson, ferðaþjónustubóndi hjá Grunnuvík, um hópa á leið til Hornstranda. „Þetta er orðið mjög algeng hjá þeim sem þora að koma. Svo eru aðrir sem bara afpanta ferðirnar,“ segir hann og vísar þar til ótta við ísbirni á Hornströndum. Frikrik tekur fram að hann útvegi ekki skyttur.

Mikið tjón

„Upphlaupið í Hælavíkinni um síðustu helgi er búið að kosta okkur eina og hálfa milljón vegna afpantaðra ferða. Þannig að þetta er ekkert grín,“ segir Friðrik. „Ég segi fyrir mína parta að ég hef engan áhuga á því að mæta svona kvikindi í fjörunni. Þannig að ég skil þetta að mörgu leyti,“ bætir hann við.

Eftirlit nauðsynlegt

Friðrik gagnrýnir stjórnvöld fyrir að sinna ekki nægilega vel eftirliti með ferðum ísbjarna. „Þau koma ekki nema það sé útkall. Það á auðvitað bara að vera eftirlit ef við ætlum að halda ferðaiðnaðinum hér áfram,“ segir Friðrik og bætir við: „Það verður bara að taka þetta alvarlega. Fyrst þeir komu á Skaga, af hverju ekki hingað því þetta eru þekktar ísbjarnaslóðir hér beint á móti Grænlandi.“

Friðrik telur að best væri ef Landhelgisgæslan sinnti eftirlitinu. „Hún er með tækin og hún er með þjálfaðan mannskap en hún þarf bara fjárveitingu í þetta.“

Í hnotskurn
Vitað er til þess að tveir ísbirnir hafi gengið á land á árinu. Þeir hafa báðir verið felldir. Síðan þá hafa margir talið sig hafa séð ísbirni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert