Á hafsbotni svokallaðs Drekasvæðis, norður undir Jan Mayen, hafa fundist djúpar holur. Þessi fundur þykir renna stoðum undir að svæðið sé fýsilegt til olíuleitar þar sem gerð hafsbotnsins svipar til norska landgrunnsins, en þar er nú mikil olíuvinnsla.
Nýlega kom rannsóknarskipið Árni Friðriksson úr leiðangri, þar sem um 10.500 km² hafsbotnsins nyrst á Drekasvæðinu voru kortlagðir með svokölluðum fjölgeisladýptarmælingum.
„Það er í sjálfu sér saga til næsta bæjar þegar tekst að mæla svo stórt svæði, en veðurskilyrðin voru afar hagstæð,“ segir Guðrún Helgadóttir, jarðfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, en hún stýrði leiðangrinum.
Rannsóknir á þessu svæði hafa verið stundaðar vegna undirbúnings útgáfu sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á norðanverðu Drekasvæðinu.
„Meðal þess sem við mældum voru holur, um 15 m djúpar og allt að 700 m í þvermál. Slíkar holur í setlögum hafa mikið verið rannsakaðar því að þær hafa víða fundist á olíuvinnslusvæðum eins og í Norðursjónum.
Áður hafa fundist merki um gasuppstreymi á þessu svæði. Ekki er vitað hvort um er að ræða hitaummyndað gas af lífrænum toga. Það er annarra að afla frekari vísbendinga um það.“
Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson heldur innan skamms norður á Drekasvæðið. Þá verða tekin sýni og lífríki hafsbotnsins rannsakað sérstaklega. Ættu niðurstöður leiðangursins að veita enn frekari vitneskju um eðli svæðisins.