Prílaði upp svalir

Ölvaður maður reyndi að komast inn í hús í Reykjavík en féll niður fimm metra og hlaut lítilsháttar meiðsl. Lögregla höfuðborgarsvæðisins var kölluð til vegna eins innbrots. Slökkviliðið fór að Bústaðarkirkju og slökkti þar í skúr. Bílvelta varð á Selfossi í gær og hlaut ökumaður einhver meiðsl.

Ölvaður maður prílaði upp hús á Skólavörðustíg klukkan hálf sjö í morgun og reyndi að komast inn á svalir sem tilheyrðu kunningja mannsins. Það vildi þó ekki betur til en maðurinn datt niður eina fimm metra og meiddi sig á ökkla og mjöðm. Var hann fluttur á sjúkrahús.

Lögregla var kölluð að Sjónvarpsmiðstöðinni um fjögur leytið í nótt. Tveir menn höfðu þá brotist inn í verslunina og haft á brott með sér sjónvarp. Unnið er að rannsókn málsins.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað að Bústaðarkirkju tuttugu mínútur yfir tíu í gærkvöldi. Kveikt hafði verið í kofa sem stóð í trjálundi bak við húsið. Logaði glatt í kofanum og einnig var kviknað í nokkrum barrtrjám. Slökkvistarfið gekk vel.

Þá varð lítilsháttar slys á höfuðborgarsvæðinu er maður átti við flugelda. Fór eitthvað úrskeiðis hjá manninum og hlaut hann minniháttar bruna.

Á Selfossi gisti einn fangageymslur vegna ölvunaróláta. Níu voru teknir fyrir of hraðan akstur í umdæminu og var hraði þess sem hraðast ók 137km þar sem 70km er hámarkshraði. Má hann eiga von á ökuleyfissviptingu. Þá var einn tekinn fyrir grun um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna.

Rétt eftir klukkan sjö í gærkvöldi valt svo jeppi út í skurð við Bræðratunguveg. Ökumaður var einn í bílnum og var hann fluttur á sjúkrahús með einhver meiðsli.


   
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert