Prílaði upp svalir

Ölvaður maður reyndi að kom­ast inn í hús í Reykja­vík en féll niður fimm metra og hlaut lít­ils­hátt­ar meiðsl. Lög­regla höfuðborg­ar­svæðis­ins var kölluð til vegna eins inn­brots. Slökkviliðið fór að Bú­staðar­kirkju og slökkti þar í skúr. Bíl­velta varð á Sel­fossi í gær og hlaut ökumaður ein­hver meiðsl.

Ölvaður maður prílaði upp hús á Skóla­vörðustíg klukk­an hálf sjö í morg­un og reyndi að kom­ast inn á sval­ir sem til­heyrðu kunn­ingja manns­ins. Það vildi þó ekki bet­ur til en maður­inn datt niður eina fimm metra og meiddi sig á ökkla og mjöðm. Var hann flutt­ur á sjúkra­hús.

Lög­regla var kölluð að Sjón­varps­miðstöðinni um fjög­ur leytið í nótt. Tveir menn höfðu þá brot­ist inn í versl­un­ina og haft á brott með sér sjón­varp. Unnið er að rann­sókn máls­ins.

Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins var kallað að Bú­staðar­kirkju tutt­ugu mín­út­ur yfir tíu í gær­kvöldi. Kveikt hafði verið í kofa sem stóð í trjálundi bak við húsið. Logaði glatt í kof­an­um og einnig var kviknað í nokkr­um barr­trjám. Slökkvi­starfið gekk vel.

Þá varð lít­ils­hátt­ar slys á höfuðborg­ar­svæðinu er maður átti við flug­elda. Fór eitt­hvað úr­skeiðis hjá mann­in­um og hlaut hann minni­hátt­ar bruna.

Á Sel­fossi gisti einn fanga­geymsl­ur vegna ölv­un­ar­óláta. Níu voru tekn­ir fyr­ir of hraðan akst­ur í um­dæm­inu og var hraði þess sem hraðast ók 137km þar sem 70km er há­marks­hraði. Má hann eiga von á öku­leyf­is­svipt­ingu. Þá var einn tek­inn fyr­ir grun um að hafa ekið und­ir áhrif­um fíkni­efna.

Rétt eft­ir klukk­an sjö í gær­kvöldi valt svo jeppi út í skurð við Bræðra­tungu­veg. Ökumaður var einn í bíln­um og var hann flutt­ur á sjúkra­hús með ein­hver meiðsli.


mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert