Svamlað í Húsavíkurhöfn

Margmenni fylgdist með tónleikum við Kaffi Skuld í gærdag.
Margmenni fylgdist með tónleikum við Kaffi Skuld í gærdag. Hafþór Hreiðarsson

Nokkur erill var hjá lögreglunni á Húsavík í nótt en nú standa þar yfir Mærudagar. Tvö umferðaróhöpp urðu þar í gærkvöldi. Einhver læti voru á svæði og nokkrir stungu sér til sunds í höfninni.

Fólksbíll ók út af í Ljósavatnsskarði og var einn fluttur á sjúkrahús með minniháttar meiðsl. Þá valt bíll skammt norðan við Kópasker. Einn var í bílnum og meiddist hann ekki. Bíllinn hafnaði á toppnum og er talsvert skemmdur.

Lögreglan hafði talsvert að gera í nótt og voru flest útköllin vegna ölvunar. Mikil slagsmál brutust út í nótt og voru fjórum komið á sjúkrahús til skoðunar. Áverkar voru lítilsháttar. Þremur öðrum var einnig komið á sjúkrahús vegna ölvunarmála og reyndust þeir einnig hafa lítilsháttar áverka.

Þá datt maður við skemmtistað í bænum og var hann meðvitundarlaus er að var komið.Var hann sömuleiðis fluttur á sjúkrahús.

Lögreglan var svo kölluð til um hálf fimm í morgun að Húsavíkurhöfn. Þar voru þrír menn að synda um, naktir. Mennirnir voru beðnir að koma sér til lands, klæða sig og koma sér heim. Urðu þeir við óskum lögreglunnar.

Lögreglan er nokkuð ánægð með helgina enn sem komið er. Milli fimm og sex þúsund manns taka þátt í hátíðinni og við því að búast að verkefni skapist fyrir lögregluna. Sagði hún hátíðina fara í heildina vel fram. Einmuna blíða sé á staðnum og stemningin góð.

Margt er um manninn á Húsavík vegna Mærudaga 2008.
Margt er um manninn á Húsavík vegna Mærudaga 2008. mbl.is/Þorgeir Baldursson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert