Þyrla landhelgisgæslunnar sótti á sunnudagsmorgun slasaða konu í Flatey á Breiðafirði. Kvöldið áður hafði hún fengið tjaldsúlu í augað. Svo vel vildi til að augnlæknir var í eynni og hann taldi konunni ekki liggja mikið á að komast undir læknishendur. Mælti hann með að hún héldi suður daginn eftir.
Morguninn eftir var konan sárkvalin og mikið bólgin. Engin aðstaða eða verkjalyf voru tiltæk og fyrirséð að konan næði ekki til Reykjavíkur fyrr en undir kvöld. Landhelgisgæslan var því fengin til að sækja hana og ferja til Reykjavíkur. Flaug þyrlan með hana á Reykjavíkurflugvöll og þaðan ók sjúkrabíll henni á Landspítalann við Hringbraut.