Starfsmenn Kastljóss sýknaðir

Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss.
Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað útvarpsstjóra og  starfsfólk Kastljóssins í Sjónvarpinu í miskabótamáli, sem höfðað var vegna umfjöllunar um íslenskan ríkisborgararétt konu frá Mið-Ameríku í apríl og maí 2007.

Alþingi veitti konunni ríkisborgararétt með lögum í mars samkvæmt tillögu allsherjarnefndar þingsins. Kastljósið og frétastofa Sjónvarpsins fjölluðu um málið í kjölfarið og kom þá fram að Lucia Celeste Molina Sierra, sem var þá tæplega tvítug, hefði aðeins búið hér á landi í um 15 mánuði og dvalist hér á landi sem námsmaður með skráð lögheimili á heimili Jónínu Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra. Lucia er unnusta Birnis Orra Péturssonar, sonar Jónínu.

Parið stefndi starfsmönnum Sjónvarpsins og krafðist miskabóta, Lucia  2,5 milljóna króna og Birnir Orri 1 milljónar króna. Töldu þau m.a. að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs þeirra með ólögmætum hætti.

Í dómnum segir Eggert Óskarsson, héraðsdómari, að umfjöllun Kastljóss vegna umsóknar Luciu um íslenskan ríkisborgararétt hafi verið málefni, sem átti erindi til almennings og hafði fréttagildi. Óhjákvæmilegt hafi verið í þágu úrvinnslu fréttaefnisins að fram kæmu upplýsingar um persónulega hagi Luciu. Ekki hafi verið gengið nær einkalífi hennar en þörf var á í opinberri umræðu um málefni sem varðaði almenning.

„Af gögnum máls verður ekki ráðið að afgreiðsla umsóknar stefnanda Luciu um íslenskan ríkisborgararétt hafi verið önnur en almennt gerist, eins og gefið var í skyn í upphaflegri umfjöllun Kastljóss um málið. Það breytir því þó ekki að réttlætanlegt tilefni var til þess að fjalla um málið sem varðaði meðferð og afgreiðslu allsherjarnefndar á veitingu ríkisborgararéttar, eins og fyrr greinir," segir m.a. í dómnum.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í heild 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert