Trausti Fannar Valsson lektor í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands telur það ekki samrýmast viðmiðum stjórnsýsluréttar um vandaða stjórnsýsluhætti að ráða opinbera starfsmenn hjá sveitarfélögum án almennra auglýsinga. Embætti sem ráðið var í á aukafundi bæjarráðs Kópavogs á laugardaginn voru ekki auglýst. Var þar um að ræða nokkur æðstu embætti bæjarins, meðal annars stöðu sviðsstjóra fræðslusviðs og gæðastjóra bæjarins.
Engin bein lagaskylda til að auglýsa störf hvílir á sveitarfélögum. Almennt er það þó talið til vandaðra stjórnsýsluhátta og þykir æskilegt að stjórnvöld hafi þá í hávegum. Skylda sveitarfélaga til að auglýsa í stöður embættismanna og opinberra starfsmanna kann að verða leidd af óskráðum grundvallarreglum laga. Ekki er þó hægt að slá því föstu þar sem ekki hefur fallið dómur þar um.
„Það er athyglisvert að ítarleg lög gilda um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem meðal annars er kveðið á um auglýsingaskyldu, en sambærileg lög gilda ekki um starfsmenn sveitarfélaga,“ segir Trausti. Hann teldi ekki óeðlilegt að sett yrðu lög um réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga, ekki síst í þágu hagsmuna sveitarfélaganna sjálfra. Óheppilegt sé að almennar skyldur starfsmanna séu aðeins leiddar af kjara- og ráðningarsamningum.
Trausti leggur þó áherslu á að starfsmannamál sveitarfélaga lúti sveitarstjórnar-, stjórnsýslulögum og fleiri sérlögum.
Samfylkingin í Kópavogi lætur nú ganga úr skugga um hvort ráðningarnar standist lög. Meirihlutinn hafnar ólögmæti ráðninganna sem og ásökunum um að þær samræmist ekki starfsmannastefnu bæjarins.
„Það stendur í bæjarmálasamþykkt bæjarins að starfsmenn bæjarins hafi réttindi og skyldur opinberra starfsmanna,“ segir Guðríður Arnardóttir, en þar er skýrt kveðið á um að auglýsa skuli embætti til umsókna. Hún segir aðfarir við ráðningarnar á gráu svæði, þær séu ekki endilega ólöglegar en þær séu siðlausar. Telur hún vinnubrögð meirihlutans ólýðræðisleg.
Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri segir ekkert athugavert við vinnubrögð meirihlutans. Hann telur eðlilegt að starfsfólk bæjarins fái framgang í starfi með þessum hætti.