Tófa beit konu

Tófa beit konu í fótlegginn í hlíðum Húsfells, suðaustur af Hafnarfirði í  síðustu viku. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en konan var ásamt fleirum á göngu í fjallinu.

Haft er eftir konu, sem var í hópnum, að tófan hefði komið hlaupandi þar sem fólkið var að fá sér kaffi. Tófan hljóp að einni konunni og síðan rakleiðis til baka. Konan tók eftir því að það blæddi úr fæti hennar. Hún leitaði á slysadeild þar sem gert var að sárinu og konan fékk einnig stífkrampasprautu.

Haft er eftir Páli Hersteinssyni, prófessor í spendýrafræði, að hann hafi aldrei heyrt um svona atvik fyrr. Hugsanlegt sé þó að tófan hafi ekki séð konurnar fyrr en hún bókstaflega rakst á þær en vitað sé að tófur sjái illa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert