Það er sérstakt að sitja á spjalli með mæðgunum í Bæ í Árneshreppi á Ströndum og hugsa til þess að tólfti ættliðurinn undir þessu sama fjalli, að minnsta kosti, kom í heiminn í ársbyrjun. Heimasæturnar Magnea Fönn, fimm mánaða, og Aníta Mjöll, tæplega tveggja ára, eru yngstar í þessum hópi undir Finnbogastaðafjalli. Eftir 50 ár verður fjallið örugglega á sínum stað, en spurningin er hvernig byggðinni reiðir af á næstu áratugum.
„Maður skyldi aldrei segja aldrei, en ef ég flyt héðan úr sveitinni verð ég alla vega með þeim síðustu til að fara í burtu,“ segir Guðbjörg Þorsteinsdóttir í Bæ. Hún hefur alla tíð búið á sömu torfunni; fædd og uppalin á Finnbogastöðum, en flutti árið 1972 að Bæ. Þar byrjuðu hún og eiginmaður hennar, Hjalti Guðmundsson, búskap með tengdaforeldrum hennar árið 1972, en Hjalti lést árið 2005.
Nú hefur Pálína dóttir þeirra tekið við búsforráðum ásamt Gunnari Helga Dalkvist Guðjónssyni, eiginmanni sínum. Þau eiga dæturnar Magneu Fönn og Anítu Mjöll. Nöfnin á stelpunum hafa ekkert með fannfergi vetrarins að gera, foreldrunum fannst nöfnin einfaldlega falleg.
Pálína og Gunnar eru yngstu bændurnir í hreppnum, en með stærsta býlið. Í Bæ eru rúmlega 500 fjár, en eingöngu er búið með sauðfé í Árneshreppi.