Borgarstjóri skiptir um varaformann skipulagsráðs

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir.
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir. mbl.is/Frikki

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri hefur tilkynnt Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur arkitekt að hún njóti ekki lengur stuðnings hans sem fulltrúi F-lista og óháðra í skipulagsráði Reykjavíkur. Hann tjáði henni jafnframt að Magnús Skúlason arkitekt yrði skipaður aðalmaður í hennar stað á næsta fundi borgarráðs.

Tilefni þessarar ákvörðunar er viðtal sem birtist við Ólöfu Guðnýju í fréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar sl. laugardagskvöld þar sem Ólöf Guðný sagði að hún teldi ekki tímabært að taka afstöðu til 1. verðlaunatillögu um Listaháskóla Íslands þar sem tillagan hefði ekki verið rædd í skipulagsráði.

Ólöf Guðný hélt áfram í skipulagsráði eftir að hún lét af störfum aðstoðarmanns með vilja og stuðningi borgarstjóra og annarra borgarfulltrúa. Ólöf hefur tjáð sig um málefni Listaháskólans í fjölmiðlum undanfarna daga, en aðeins í þá veru að ráðið þurfi að koma saman og móta afstöðu sína, menn þurfi að skoða málin í lýðræðisþjóðfélagi. Borgarstjóri er andvígur því að Listaháskólinn verði byggður í samræmi við vinningstillögu úr samkeppni sem kynnt var á dögunum. Ólafur F. Magnússon telur byggingu skólans samkvæmt tillögunni ekki samrýmast varðveislu götumyndar Laugavegarins.

Ásta Þorleifsdóttir, varaformaður Orkuveitu Reykjavíkur, og varaborgarfulltrúi, er varamaður Ólafar Guðnýjar í skipulagsráði. En samkvæmt heimildum 24 stunda hyggst Ólafur F. Magnússon setja Magnús Skúlason, fyrrverandi formann húsafriðunarnefndar inn sem varaformann skipulagsráðs. Ólöf Guðný segir að brottreksturinn úr nefndinni hafi komið sér að öllu leyti og algjörlega á óvart, enda hafi hún ekki tjáð sig efnislega um byggingu Listaháskólans.

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri staðfesti undir kvöld í gær í að breytingar væru framundan í ráðinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert