Hrefnukjöt selt upp úr bátnum

Hrefna dregin upp í Halldór Sigurðsson ÍS.
Hrefna dregin upp í Halldór Sigurðsson ÍS. AP

Konráð Eggertsson, hvalveiðimaður og formaður Félags hrefnuveiðimanna, ætlar í dag að selja hrefnukjöt sem hann veiddi í morgun í Ísafjarðardjúpi. Búið er að veiða 26 hrefnur af þeim 40 dýra kvóta, sem sjávarútvegsráðuneytið gaf út fyrir þetta ár.

Konráð kom að landi á Ísafirði í morgun með um 400 kíló af hrefnukjöti og ætlar að selja það við hvalveiðibátinn sinn, Halldór Sigurðsson ÍS, þar sem hann liggur við bryggju við Edinborgarhúsið milli kl. 17 og 19 í dag. Að sögn Konráðs verður þetta selt á „gamla mátann“ til þeirra sem vilja en verðið á kílóinu er 800 krónur.

Aðspurður hvort hann búist við mikilli aðsókn segir hann að það verði bara að koma í ljós. Mikið af ferðamönnum er í bænum í dag enda tvö skemmtiferðaskip á Ísafirði.

Hvalveiðibáturinn Njörður, sem undanfarna mánuði hefur stundað hrefnuveiðar í Faxaflóa, veiddi tvær hrefnur í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert