Þrátt fyrir að einmuna blíða og hiti sé nú í höfuðborginni hefur ekki fallið hitamet, en meiri líkur eru á að það verði á morgun, þegar horfur eru á enn betra veðri.
Að sögn Björns Sævars Einarssonar veðurfræðings var 21 stigs hiti samkvæmt sjálfvirkum mæli í Öskjuhlíðinni nú síðdegis, en á veðurstöðvum á Geldinganesi, Korpu og Hólmsheiði, mældist einni gráðu betur.
Björn segir að hlýrra kunni að verða á morgun, „það er að segja ef hafgolan skemmir ekki fyrir.“