Íbúar í húsi SEM-samtakanna við Sléttuveg í Reykjavík hafa sent Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins mótmælabréf vegna meintrar mannfyrirlitningar sem fram komi í útboði á „þjónustu við persónulega umhirðu“ 12 mikið fatlaðra einstaklinga.
Í mótmælunum segir að fundur íbúa hússins, notenda heimahjúkrunar, telji „að hér sé verið að fara aftur til fortíðar og þvert á allar hugmyndir í nútímasamfélagi. Það er gengið í berhögg við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun.“
Ekkert samráð hafi verið haft við þá sem eiga að njóta þjónustunnar. Ekki hafi verið tekið tillit til 22. gr. samningsins, Virðing fyrir einkalífi, en þar segi:
„ Aðildarríkin skulu tryggja að farið sé með upplýsingar um persónulega hagi, heilsufar og endurhæfingu fatlaðra sem trúnaðarmál á sama hátt og gildir um aðra."
„Í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við, svo sem Norðurlöndin er fyrir löngu komið valfrelsi fyrir mikið fatlaða einstaklinga um hvernig þeirra aðstoð sé háttað. Þar eru Svíar og Norðmenn í fararbroddi og bendum við sérstaklega á í Svíþjóð: Persónlig assistanse sem er hluti af LSS (Lög um aðstoð og þjónustu fyrir vissa fatlaða) og LASS (Lög um aðstoðarstyrk). Í Noregi er ULOBA, sameignarfélag notenda, sem mikil ánægja er með þar í landi.“
„Samtökin eru reiðubúin til að vera stjórnvöldum innan handar og til ráðgjafar um framtíðarskipan þessa mála.“
„Við leggjum til að framkvæmdum verði frestað þar til tóm hefur gefist til að ræða við notendur þjónustunnar.“