Unnið áfram með verðlaunatillöguna að Listaháskóla Íslands. Einhverjar breytingar gætu orðið á tillögunni. Mikilvægt að tryggja að stofnunin geti komið sér fyrir á reitnum til framtíðar. Leitað verður leiða til að varðveita götumyndina sem best.
Samþykkt var á fundi fulltrúa Listaháskóla Íslands og Samson Properties með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, formanni skipulagsráðs Reykjavíkur, að vinna áfram verðlaunatillögu +Arkítekta um nýbyggingu Listaháskóla Íslands á Frakkastíg.
Hanna Birna sagði að fundurinn með forsvarsmönnum hefði verið afar góður. Þeir hefðu skýrt sín sjónarmið og hún skýrt sjónarmið borgarinnar.
Einhverjar breytingar gætu orðið
Ekki er útilokað að einhverjar breytingar komi fram á tillögunni og sagði Hanna Birna að það væri öllum ríkt í huga að mæta þyrfti bæði þörfum skólans og borgarinnar sjálfrar.
„Það að vinna tillöguna áfram felur í sér hefðbundna yfirferð á henni í samráði við skipulagsyfirvöld. Það verður farið vel yfir málin og til dæmis skoðað hvort það sé eitthvað sem menn vilja vinna öðruvísi,“ segir Hanna Birna.
Hún sagðist fullviss um að lausn fyndist í málinu svo tryggt væri að þessi mikilvæga stofnun gæti reist sér skóla þarna til framtíðar. „Það var jákvæður tónn í forsvarsmönnum og þeim er mikið í mun að þetta samstarf gangi vel.“
Mikilvægt að koma til móts við þarfir skólans
Rými það sem byggja þarf samkvæmt tillögunni er talsvert stærra en það sem lagt var upp með í byrjun. Er inni í myndinna að endurskoða stærð skólans? „Við munum skoða tillöguna í heild sinni en það er mikilvægt að koma til móts við þarfir skólans. Og þeir við okkur, að sjálfsögðu. Þetta verður samvinna.“
Ef farið verður eftir tillögunni krefst það að nokkur hús verða rifin. Mun það líka verða endurskoðað? „Mörg þessara húsa mega víkja samkvæmt ríkjandi deiliskipulagi,“ sagði Hanna Birna. „En við förum í þessa samvinnu með opnum huga og gerum þetta faglega og af metnaði.“
Tillagan verði aðlöguð betur að núverandi götumynd
Vinningstillagan hefur meðal annars verið gagnrýnd fyrir það að hún falli ekki vel að núverandi götumynd. Verður útlit hússins endurskoðað? „Eitt af markmiðum viðræðanna er að sjálfsögðu það að sjónarhorn borgarinnar verði virt og því verður það skoðað hvort hægt sé að aðlaga þessa góðu tillögu betur að götumynd Laugavegar. Höfundar tillögunnar eru einstaklega færir arkitektar og ég treysti þeim til þess að vinna vel með okkur að þessu máli,” sagði Hanna Birna að endingu.