„Þetta er hið besta mál“

Akureyringar hafa í dag nýtt sér nýja græna svæðið til …
Akureyringar hafa í dag nýtt sér nýja græna svæðið til sólbaða. mbl.is/Golli

Ráðhústorgið á Akureyri verður grænt um Verslunarmannahelgina, en ákveðið hefur verið að láta ekki fjarlægja þökur sem lagðar voru á torgið í leyfisleysi. Segir Sigrún Jakobsdóttir bæjarstjóri að þetta sé „hið besta mál.“

„Okkur finnst þetta skemmtilegt framtak og ákváðum að horft verði til fortíðar hér um helgina,“ sagði Sigrún, en Ráðhústorgið hafði grænan reit í miðjunni á árum áður. Það var steinlagt árið 1992.

Sigrún segir að Sigurður Guðmundsson, verslunareigandi í bænum, hafi staðið að þökulagningunni, reyndar í leyfisleysi, en oft hafi komið fram beiðnir um að gera torgið grænt aftur.

„Það eru nú þegar margir sestir þarna í sólbað,“ sagði Sigrún ennfremur.

Ákveðið hafi verið að flytja hringsviðið á torginu, þar sem fram fara skemmtiatriði um helgina, undir vegg sýsluskrifstofunnar við enda Hafnarstrætis.

„Svo vonum við bara að allt fari vel um helgina, þegar hér verða mörg þúsund gestir í bænum,“ sagði Sigrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert