Benedikt S. Lafleur, sundkappi, hyggst nýta sér hlýindi undanfarinna daga og synda frá Drangey í land, á Reykjum í Skagafirði í dag. Benedikt stefnir á að hefja sundið upp úr kl. 18.00-18.30 úr fjörunni í Drangey en áætlaður sundtími er 3 klst eða meira.
Um 6 einstaklingar hafa synt Drangeyjarsund, annað hvort styttri eða lengri leið. Sú styttri er tæpir 7 km en sú lengri, frá uppgönguvíkinni, tæpir 8 km. Aðeins tveir einstaklingar hafa synt tvisvar sinnum frá Drangey, í annað skiptið ósmurðir, Eyjólfur Jónsson og Kristinn Magnússon. Sá síðarnefndi synti síðast og hefur í fórum sínum Drangeyjarbikarinn, farandbikar ÍSÍ sem fer til næsta Drangeyjarsundmanns, að því er fram kemur í tilkynningu.
Benedikt mun synda ósmurður í þetta skiptið. Björgunarsveitin Skagafjarðarsveit annast fylgd í bát og stefnt er að því að minnsta kosti einn sundmaður, Ingvar Páll Ingvarsson, syndi smá spöl með Benedikt.