Karlmenn læra um konur

Bókin Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama fór í hvert hús á Skagaströnd. Höfundur verksins, Þorgrímur Þráinsson, gaf bókina í þakklætisskyni fyrir góða dvöl í bænum.

Fram kemur á vef Skagastrandar að karlmenn þar á bæi sitji líklega við lestur og eiginkonur bíði sennilega eftir því að lestri ljúki.

Betri tíð sé í vændum enda nefnist bókin „Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama.“

Bókin er gjöf frá Þorgrími Þráinssyni, rithöfundi, sem dvaldi í bænum í júní við ritstörf á vegum Nes-listamiðstöðvar. Svo ánægður var Þorgrímur með dvöl sína, að á upplestrarkvöldi í lok júní sagðist hann ætla að gefa bæjarbúum áðurnefnda bók.

Bókin kom út um síðustu jól og seldist í stóru upplagi. Stóð Þorgrímur við loforð sitt og var bókinni dreift nú í vikunni.

Þá segir að eflaust muni einhverjir grínast með bókargjöfina og fullyrði að henni sé ætlað að bæta úr sárri neyð á Skagaströnd. 

Hvað sem kann að vera satt í því slíkum staðhæfingum þá hljóti hin hamingjusömu sögulok að verða þau að allir karlar verði nú betur að sér og konur njóti. Annað komi vart til greina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka