„Miðað við undanfarin ár er þetta stórkostlegt stílbrot. Þetta hefur ekki gerst áður,“ segir Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar, en lóðarhafar skiluðu um það bil fimmtíu lóðum sem úthlutað var í Vatnsendahlíð í Kópavogi. Eitthvað var einnig um skil í Kórahverfinu.
„Fólk sýnir skynsemi því það skynjar lánamarkaðinn þungan um þessar mundir. Því höfum við verið að fá bréf frá lóðarhöfum þar sem þeir lýsa því yfir að þeir geti ekki byggt á úthlutaðri lóð,“ segir Ómar jafnframt. Allar lóðirnar í Vatnsendahlíð voru lóðir undir einbýlishús. Kópavogsbær auglýsti lóðirnar sem var skilað og þær gengu allar út. Ekki verður auglýst aftur í Vatnsendahlíð í bráð þar sem beðið er eftir staðfestingu umhverfisráðuneytisins á deiliskipulagi.
Þegar aðgengi að lánsfé er lítið og bankar halda að sér höndum dregur úr allri uppbyggingu. Stór hluti nýrra fasteigna ræðst af því að gott verð fáist fyrir fyrirliggjandi eignir og góðu aðgengi að lánsfé. „Við erum að bíða eftir viðbrögðum bankanna. Hvað gera þeir?“ segir Ómar spurður hvort hann muni sjá áframhaldandi skil á lóðum.
Margt spilar inn í þegar fólk dregur umsóknir sínar til baka. „Fólk virðist hafa miklar áhyggjur af því að geta ekki selt þegar fasteignamarkaðurinn er eins og hann er,“ segir Lúðvík. Að hans sögn hefur hægst á framkvæmdum. „Það er rólegra yfir, það er engin launung. Við höfum töluverðar áhyggjur af því að þetta komist ekki á skrið fljótlega. Það gengur ekki að það verði frost á þessum markaði fram eftir hausti. Markaðurinn verður að fara að glæðast,“ segir Lúðvík.