Mikilvægt að greina sérstöðu Hornstrandasvæðisins

Landeigendur sem ekki eru búsettir á Vestfjörðum telja líklegra að sérstaða Hornstrandasvæðisins minnki með aukinni ferðamennsku heldur en landeigendur sem búsettir eru í fjórðunginum. Þetta kemur fram í viðhorfskönnun meðal landeigenda á svæðinu sem ferðamálafræðinemarnir Rannveig Guðmundsdóttir og Ragnhildur Sveinbjarnardóttir unnu í vetur.

Fram kemur á fréttavef Bæjarins besta að athyglisvert sé að marktækt greinist hér milli hópa eftir búsetu. Út frá þessu má álykta að kunnugleiki svæðis, […], geti gert það að verkum að tilfinning fyrir áhrifum ferðamennsku á svæðið er ekki eins sterk hjá þeim sem búsettir eru utan Vestfjarða.

Flestir viðmælendur voru þó sammála því að „ef það verður mikill fjöldi á svæðinu þá hlýtur það að hafa áhrif á ímynd svæðisins og þá kemur náttúrulega líka þörfin fyrir alls konar aðstöðu hér og þar“, segir í niðurstöðum rannsóknarinnar sem leiddu í ljós mikilvægi þess að greina sérstöðu svæðisins og viðhorf þeirra sem það nýta og móta stefnumótun og framtíðarsýn út frá slíkum þáttum.

Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á ólík sjónarmið landeigenda varðandi nýtingu og verndun svæðisins. „Viðhorf landeigenda til ferðamennsku eru fjölbreytt og talsvert skiptar skoðanir varðandi framtíðarnýtingu svæðisins en endurspeglar það að hluta til ólík tengsl landeigenda við svæðið og þær fjölbreytilegu aðstæður sem eru til staðar. Ólík sjónarmið komu fram varðandi aðgengi og aðstöðu, fjölda og dreifingu ferðamanna, friðlýsingar, öryggi og fleira. Niðurstöður sýna að mörgu er ábótavant í skipulagsmálum en vonir eru bundnar við skipulagsvinnu Ísafjarðabæjar og samvinnu við hagsmunaðila Hornstrandasvæðis.“

Hornstrandasvæðið er eitt af vinsælustu göngusvæðum landsins. Svæðið býr yfir mikilli sérstöðu vegna fjölbreyttrar náttúru, sögu og búsetuþátta en engin búseta hefur verið þar í um hálfa öld. Svæðið afmarkast af nyrsta kjálka Vestfjarða og sunnanverðum Jökulfjörðum og er að hluta til friðland. Það hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn jafnt sem landeigendur en þeir eru fjölmennur hópur sem hefur ólík tengsl við svæðið, meðal annars vegna búsetu og staðbundinnar þekkingar. Ferðaþjónusta á svæðinu einkennist af siglingum í helstu víkur og firði auk leiðsagnar um svæðið en aðstaða og þjónusta er þarna takmörkuð.

Könnunina má nálgast á vef rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert