Mótmælendur í skjólfatnaði merktum OR

Frá aðgerðum Saving Iceland á Skarðsmýrarfjalli.
Frá aðgerðum Saving Iceland á Skarðsmýrarfjalli. mbl.is/Daníel

Í ljós hefur komið að fjögur ungmenni, sem lögðust yfir þjóðveginn við Grundartanga á dögunum, voru í skjólfatnaði frá Orkuveitunni. Að sögn OR kannast enginn við að hafa gefið gallana en talsmaður ungmennanna fullyrðir engu að síður að starfsmaður fyrirtækisins hafi komið færandi hendi.

Þá segir á vef OR að eigandi tjaldleigu telji að unga fólkið hafi nappað af sér álstöngum, sem notaðar voru við sama tækifæri.

Athygli Orkuveitunnar var vakin á því á dögunum að svo virtist sem ungt fólk víða að úr heiminum, sem uppsigað er við tiltekinn hluta íslensks atvinnulífs og ætlaðar fjárfestingar á Arabíuskaga, væru í skjólfatnaði merktum Orkuveitu Reykjavíkur, rétt eins og um starfsfólk væri að ræða. Mætti greina þetta á blaðaljósmyndum frá uppákomunni. Um er að ræða regnstakka sem saknað var í vor þegar sumarstarfsfólk í garðyrkju kom til starfa.

Fram kemur á vefsíðu OR að lögreglan hafi síðar haft samband við Orkuveituna og hún sagðist hafa lagt hald á fjóra regnstakka merkta Orkuveitunni. Þeir hafi verið numdir af fjórum erlendum ungmennum sem ætlað þýfi enda hafi enginn unglinganna kannast við að starfa við uppgræðslustörf hjá Orkuveitunni. Orkuveitan bendir á talsmaður unga fólksins hafi fullyrt í samtali við fjölmiðla að stakkarnir hafi verið færðir þeim að gjöf frá starfsmanni Orkuveitunnar. OR segir skýringuna ekki vera í samræmi við það sem lögreglunni hafi verið sagt og enginn hjá Orkuveitunni kannist við rausnina, enda sé starfsmönnum almennt óheimilt að gefa eigur fyrirtækisins.

Þá bendir OR á að einnig hafi komið fram í fréttum að eigandi tjaldleigu í höfuðstaðnum telji sama ungmennaflokkinn hafa bísað af sér álstöngum, sem síðar hafi verið notaðar til að tálma umferð við Grundartanga. Sá sem mælti fyrir hönd gengisins í því tilviki sagði hinsvegar álstangirnar innfluttar sem farangur. Félagar hans skoskir hefðu haft þessi u.þ.b. fjögurra metra löngu álprik með sér til landsins að heiman og tekið með sér heim aftur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert