Nágrannaerjur á höfuðborgarsvæðinu

Ósjaldan er lögreglan kölluð til þegar nágrannar deila en þrætueplið getur verið af ýmum toga. Stundum snýst ágreiningurinn um bílastæði og sú var raunin í einu tilviki skömmu eftir hádegi í gær.

Við ónefnt fjölbýlishús á höfuðborgarsvæðinu lagði maður bíl sínum aftan við ökutæki nágrannans en sá fyrrnefndi vildi meina að hann ætti stæðið sem hinn lagði í.

Bíll þess síðarnefnda komst því hvergi þegar til átti að taka og var lögreglan þá kölluð á staðinn. Umrætt stæði var ómerkt og var „eigandanum” gert að færa bílinn sinn svo nágranni hans kæmist leiðar sinnar.

Síðdegis sinnti lögreglan öðru útkalli þar sem nágrannar voru ekki á eitt sáttir.

Þá hafði maður við ónefnda götu í umdæminu ýmislegt við aksturslag eins nágrannans að athuga.

Sá sem var borinn sökum brást ókvæða við og braut rúðu í bíl þess sem kvartaði.

Rúðubrjóturinn játaði verknaðinn og bauðst til að bæta skaðann en hafnaði alfarið öllum aðfinnslum sem nágranninn hafði upp á hann að klaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert