Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar segir að hitamet hafi verið slegið í bænum í dag og bendir á að hitastigið á mæli veltiskiltisins við Suðurlandsveg sé nú 28 gráður.
Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri segir í tilkynningu að „aftur á móti berast fregnir af enn hærri hitatölum frá íbúum sem búa í skjólsælum görðum þar sem enn hlýrra verður heldur en niður við þjóðveg. Fjölmargir hafa brugðið sér í sundlaugina í Laugaskarði og notið veðurblíðunnar en þar liggja gestir í sólbaði upp um allar brekkur. Ungviðið leikur sér í Varmá en þar hefur verið líf og fjör við Reykjafoss undanfarna daga,“ segir bæjarstjórinn.