Samband ungra sjálfstæðismanna fagnar þeirri yfirlýsingu Akureyrarbæjar um að fallið verði frá fyrri ákvörðun um aldurstakmarkanir á tjaldsvæðum bæjarins í kringum verslunarmannahelgi. Þetta kemur fram í ályktun sem SUS sendi frá sér.
Sambandið telur það fagnaðarefni að bæjarstjórnin hafi sýnt ungu fólki traust og ekki dæmt það fyrirfram. Jafnframt vill SUS koma á framfæri innilegum þökkum til þeirra heimamanna sem deildu á ákvörðun bæjarstjórnarinnar í fyrra og áttu snaran þátt í að kalla fram þær jákvæðu viðhorfsbreytingar sem nú hefur átt sér stað.
Þá segir að frá því í fyrra hafi nokkur sveitarfélög fylgt fordæmi Akureyrar og lokað tjaldstæðum sínum fyrir ungu fólki. Það er von SUS að þau sveitarfélög fylgi nú einnig fordæmi Akureyrar og beiti öðrum úrræðum en aldurstakmörkunum til að ná fram markmiðum sínum um röð og reglu á tjaldsvæðum.
Að lokum óskar Stjórn SUS öllum Akureyringum og gestum þeirra góðrar skemmtunar um verslunarmannahelgina, segir í ályktuninni.