Fréttir af blíðviðri hafa ekki farið fram hjá neinum í dag, enda veðrið með allra besta móti á landinu. Borgarbúar hafa fjölmennt á ylströndina í Nauthólsvík og að sögn starfsmanns á svæðinu er eins og „öll Reykjavík“ sé mætt á svæðið.
Starfsmaðurinn segir að strandsvæðið hafi verið yfirfullt frá því hann mætti á vaktina kl. 11:30. „Það er bara yndislegt að vera hérna,“ segir hann og bætir við að veitingasalan hafi vart undan við að sinna baðstrandargestum sem þyrstir í svaladrykk eða vill kaupa sér ís.
Ylströndin er opin til kl. 20 í kvöld, en þá lokar þjónstuhúsið og vatn er tekið af pottunum.