Bílalánin þungur baggi

Þeir sem fjármagnað hafa bifreiðarkaup sín með erlendum myntkörfulánum geta átt það á hættu að standa uppi með nokkur hundruð þúsund króna skuld verði þeir fyrir því að bifreið þeirra eyðileggist, þótt þeir séu með kaskótryggingu. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir slík dæmi hafa komið inn á borð sérfræðinga félagsins.

Þegar gerðir eru bílasamningar er það sett sem skilyrði að keypt sé kaskótrygging. Ef bíllinn eyðileggst þá fara bætur fyrir hann í uppgreiðslu á láninu en vegna gengisþróunar að undanförnu eru margir í þeirri stöðu að höfuðstóll lánsins er hærri en verðmæti bílsins.

„Við þekkjum það að svona lagað getur komið mjög illa við venjulegar fjölskyldur og jafnvel leitt þær í þrot,“ segir Runólfur. „Fólk kemur líka oft af fjöllum af því að það eru breytilegir vextir á þessum lánum. Auk gengisfellingar hafa vextirnir stórhækkað,“ bætir hann við. Hann segir þetta ekki bara erfitt fyrir þá sem hafa lent í tjóni heldur einnig þá sem vilja létta hjá sér greiðslubyrðina. „Þá er nánast ómögulegt að losa sig út úr þessum samningum því andvirði bifreiðarinnar dekkar engan veginn útistandandi skuldir.“

Runólfur segir að lánafyrirtækin hafi að sumu leyti brugðist í því að upplýsa lántakendur nægilega vel um ýmsa áhættu sem felist í því að taka lán í erlendri mynt þó svo að viss ábyrgð hvíli að sjálfsögðu alltaf á þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert