Álversframkvæmdir skuli metnar heildstætt

Kort sem sýnir hvar fyrirhugað er að reisa álver við …
Kort sem sýnir hvar fyrirhugað er að reisa álver við Bakka.

Um­hverf­is­ráðherra hef­ur ógilt ákvörðun Skipu­lags­stofn­un­ar og úr­sk­urðað að heild­stætt mat á um­hverf­isáhrif­um vegna fyr­ir­hugaðs ál­vers á Bakka við Húsa­vík og tengdra fram­kvæmda skuli fara fram.

„Ég er afar ánægður með úr­sk­urðinn,“ seg­ir Berg­ur Sig­urðsson, fram­kvæmda­stjóri Land­vernd­ar. Skipu­lags­stofn­un hafði ákveðið að sam­eig­in­legt mat á um­hverf­isáhrif­um skyldi ekki fara fram en Land­vernd kærði ákvörðun­ina til um­hverf­is­ráðuneyt­is­ins í mars sl. og krafðist þess að ákvörðunin yrði ógild.

„Hin kærða ákvörðun Skipu­lags­stofn­un­ar frá 13. fe­brú­ar 2008 er felld úr gildi og skulu um­hverf­isáhrif ál­vers á Bakka við Húsa­vík,  Þeistareykja­virkj­un­ar, Kröflu­virkj­un­ar II og há­spennu­lína frá Kröflu og Þeistareykj­um til Húsa­vík­ur met­in sam­eig­in­lega sam­kvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um mat á um­hverf­isáhrif­um nr. 106/​2000, sbr. 5. gr. laga nr. 74/​2005,“ seg­ir í úr­sk­urði um­hverf­is­ráðherra sem varð kveðinn upp í dag.

Seg­ir ráðuneytið að þegar litið sé til ávinn­ings­ins af sam­tíma mati, sem og stærðar, um­fangs, og lík­legra sam­mögn­un­ar­áhrifa hinna tengdu fram­kvæmda, telji það brýna þörf á því að tryggt sé með ótví­ræðum hætti, að mat á um­hverf­isáhrif­um fram­kvæmd­anna fari fram á sama tíma og að um­hverf­isáhrif þeirra allra liggi fyr­ir í heild sinni áður en leyfi fyr­ir ein­stök­um fram­kvæmd­um er veitt.

Þá kem­ur fram í úr­sk­urðinum, að í lög­um um um­hverf­is­mat sé að finna heim­ild til að ákveða að um­hverf­isáhrif fleiri en einn­ar fram­kvæmd­ar skuli met­in sam­eig­in­lega. Þrenn skil­yrði séu sett fyr­ir því að beita megi þess­ari heim­ild auk þess sem ákvörðunin verður að sam­rýmast meðal­hófs­regl­unni og öðrum regl­um stjórn­sýslu­rétt­ar. Í úr­sk­urðinum eru færð fyr­ir því rök, að öll laga­skil­yrði ákvæðis­ins séu til staðar í mál­inu.

Aðspurður um hvaða þýðingu úr­sk­urður ráðherra hef­ur seg­ir Berg­ur: „Þetta þýðir það að fyr­ir norðan verður ekki haf­ist handa við bygg­ingu ál­vers fyrr en menn hafa fengið heild­ar­mynd af um­hverf­isáhrif­un­um.“

Um­hverf­is­ráðherra hafnaði í apríl kröfu Land­vernd­ar um að fella úr gildi þá ákvörðun Skipu­lags­stofn­un­ar ekki bæri að meta heild­stætt um­hverf­isáhrif ál­vers­fram­kvæmda í Helgu­vík, orku­fram­kvæmda og línu­lagna. Í þeim úr­sk­urði kom fram, að ákvörðun um sam­eig­in­legt mat Helgu­víkurál­vers­ins og tengdra fram­kvæmda bryti í bága við meðal­hófs­reglu og sjón­ar­mið um rétt­mæt­ar vænt­ing­ar fram­kvæmd­araðila. Sagði Þór­unn Svein­bjarn­ar­dótt­ir, um­hverf­is­ráðherra, þá að mats­ferlið væri of langt komið til að hægt væri að snúa því við. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert