Umhverfisráðherra hefur ógilt ákvörðun Skipulagsstofnunar og úrskurðað að heildstætt mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs álvers á Bakka við Húsavík og tengdra framkvæmda skuli fara fram.
„Ég er afar ánægður með úrskurðinn,“ segir Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar. Skipulagsstofnun hafði ákveðið að sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum skyldi ekki fara fram en Landvernd kærði ákvörðunina til umhverfisráðuneytisins í mars sl. og krafðist þess að ákvörðunin yrði ógild.
„Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 13. febrúar 2008 er felld úr gildi og skulu umhverfisáhrif álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur metin sameiginlega samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 74/2005,“ segir í úrskurði umhverfisráðherra sem varð kveðinn upp í dag.
Segir ráðuneytið að þegar litið sé til ávinningsins af samtíma mati, sem og stærðar, umfangs, og líklegra sammögnunaráhrifa hinna tengdu framkvæmda, telji það brýna þörf á því að tryggt sé með ótvíræðum hætti, að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna fari fram á sama tíma og að umhverfisáhrif þeirra allra liggi fyrir í heild sinni áður en leyfi fyrir einstökum framkvæmdum er veitt.
Þá kemur fram í úrskurðinum, að í lögum um umhverfismat sé að finna heimild til að ákveða að umhverfisáhrif fleiri en einnar framkvæmdar skuli metin sameiginlega. Þrenn skilyrði séu sett fyrir því að beita megi þessari heimild auk þess sem ákvörðunin verður að samrýmast meðalhófsreglunni og öðrum reglum stjórnsýsluréttar. Í úrskurðinum eru færð fyrir því rök, að öll lagaskilyrði ákvæðisins séu til staðar í málinu.
Aðspurður um hvaða þýðingu úrskurður ráðherra hefur segir Bergur: „Þetta þýðir það að fyrir norðan verður ekki hafist handa við byggingu álvers fyrr en menn hafa fengið heildarmynd af umhverfisáhrifunum.“
Umhverfisráðherra hafnaði í apríl kröfu Landverndar um að fella úr gildi þá ákvörðun Skipulagsstofnunar ekki bæri að meta heildstætt umhverfisáhrif álversframkvæmda í Helguvík, orkuframkvæmda og línulagna. Í þeim úrskurði kom fram, að ákvörðun um sameiginlegt mat Helguvíkurálversins og tengdra framkvæmda bryti í bága við meðalhófsreglu og sjónarmið um réttmætar væntingar framkvæmdaraðila. Sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, þá að matsferlið væri of langt komið til að hægt væri að snúa því við.