Guðni gekk út í beinni

Miðjan, þáttur í Útvarpi Sögu, síðdegis í gær þar sem Sverrir Stormsker ræddi við Guðna Ágústsson, formann Framsóknarflokksins, endaði með því að Guðni gekk út í beinni útsendingu. „Eftir klukkutíma þref yfirgaf ég þáttinn,“ sagði Guðni. „Ég tel mér ekki skylt að sitja í svona samræðum.“ Guðni sagði það sem olli því að hann gekk á dyr hafa verið „útúrsnúningar og athugasemdir sem ég kann ekkert við í svona þætti um menn og málefni“.

Talið barst meðal annars að landbúnaðarstefnu Guðna. Sverrir sagði fé sem færi í landbúnaðarráðuneytið jafngilda því að fimmtán milljörðum væri sturtað í klósettið á hverju ári. Hann sagði líklega mest hafa fokið í Guðna við þessi orð. Hann sagði einnig hugsanlegt að Guðni hefði gengið út „vegna þess að ég gaf það í skyn að hann væri sveitamaður eða sagði það jafnvel beinum orðum“. Sverrir sagðist efast um að stjórnmálamaður hefði nokkurn tímann áður yfirgefið útvarpsþátt í bræði.

Sverrir sagði að eftir þáttinn hefði Guðni komið að máli við Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra á Útvarpi Sögu, og óskað eftir því að þátturinn yrði ekki endurfluttur. Í samtali við Morgunblaðið sagðist Guðni vona að útvarpsstöðin endurskoðaði hvað hún sendi í loftið.

Aðspurður sagðist Sverrir ekki hafa búist við þessum viðbrögðum og að meiningin hefði ekki verið að ögra Guðna. „Það er gaman að kallinum, og það hefði verið ennþá meira gaman að honum ef hann hefði viljað sitja lengur.“ sigrunhlin@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert