Nýtt hús lögreglu á Lækjartorgi

mbl.is/Július

Litlu húsi hefur verið komið fyrir á Lækjartorgi og er því ætlað að vera afdrep fyrir lögregluna í miðbænum. Stöðin verður rekin eftir þörfum en fyrst um sinn mun hún verða notuð um helgar. Yfirmenn munu skiptast á að vera í húsinu og svara fyrirspurnum frá vegfarendum. Húsið verður tekið í notkun nú um helgina.

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins,  sagði að lögreglan hefði óskað eftir því í júnímánuði að fá sett upp hús á þessum stað svo hægt væri að sinna verkefnum betur í miðborginni.

„Við munum prófa þetta út sumarið og sjá svo hvernig reynslan verður. Ég reikna alveg með því að þetta verði árlegt," sagði Geir Jón.

Reiknað er með því að húsið verði notað á sumrin en ef reynslan er góð af útstöðinni má vera að það verði í notkun á veturnar líka.

 Ekki er búið að ákveða hversu margir lögregluþjónar munu vinna út frá húsinu heldur verður það metið þegar á líður. 

 „Okkur langar að vera sem næst miðborgarlífinu um helgar og þegar ástæða þykir. Við skulum svo sjá til hvernig þetta gengur,“ sagði Geir Jón.

Vonir standa til að með þessum hætti verði hægt að koma betri böndum yfir ástandið sem oft skapast í miðborginni um helgar.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert