„Texti Baggalúts snýst ekki um eðlilega hegðun"

Femínistafélagið hvetur til ábyrgrar kynhegðunar þar sem ánægja og vellíðan …
Femínistafélagið hvetur til ábyrgrar kynhegðunar þar sem ánægja og vellíðan þátttakenda sem ganga fúsir til leiks er markmiðið. Sverrir Vilhelmsson

Femínistafélag Íslands harmar að umræða undanfarna daga sé á þá leið að texti lags hljómsveitarinnar Baggalúts „Þjóðhátíð '93" snúist um eðlilega hegðun í samskiptum kynjanna. 

Í tilkynningu frá Femínistafélaginu segir að leiddar hafi verið líkur að því að eitthvað hljóti að vera að hjá fólki sem sér ofbeldistilvísanir og kvenfyrirlitningu út úr textanum.  Femínistafélagið vill benda á að kynferðisofbeldi sé útbreitt í íslensku samfélagi og að þörf sé á stórátaki svo unnt sé að sporna við því. Til að útrýma kynferðisofbeldi er nauðsynlegt að byggja upp samfélag jafnréttis og virðingar á milli kynja.


Í tilkynningunni segir „þegar lag Baggalúts birtist í ljósvakamiðlum höfðu nokkrir einstaklingar samband við okkur til að lýsa yfir áhyggjum af því að í textanum væri verið að fjalla um kynferðisofbeldi. Að okkar mati er það skaðlegur boðskapur að senda strákum þau skilaboð að þeim beri að notfæra sér ölvunarástand kvenna, eins og fjallað er um í textanum. Slíkt gengur þvert á hugmyndir um kynfrelsi einstaklinga. Því tökum við undir þær áhyggjur sem lýst hefur verið að textinn geti fjallað um eða réttlætt kynferðisofbeldi."

Ennfremur segir að Karlahópur Femínistafélagsins hafi unnið ötult starf frá stofnun félagsins við að fræða karlmenn um ranghugmyndir um nauðganir og réttlætingar á þeim og um leið hvatt þá til að axla ábyrgð í umræðunni um kynferðisofbeldi. Meðal þess sem áhersla er lögð á er kynfrelsi beggja kynja og að samþykki fyrir kynlífi þurfi alltaf að vera til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert