Áætlað er að allt að tíu þúsund manns sæki þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þetta árið. Hún var sett í dag og í kvöld streymdi fólk í Herjólfsdal til að taka þátt í kvöldvökunni og dansleikjum. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá og var ekki annað að sjá en að fólki líkaði vel það sem boðið var upp á.
„Þú sleppir ekki þjóðhátíð ótilneyddur," sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, sem var mættur í brekkuna með fjölskyldu sína.
„Birgir Guðjónsson, formaður þjóðhátíðarnefndar, tók í sama streng. „Mér líst vel á þetta enda spáin góð fyrir helgina. Hér er óvenju margt fólk en það er hingað komið til að skemmta sér og eiga ánægjulega helgi. Það og góða veðrið er ávísun á frábæra þjóðhátíð."