Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði við innsetningarathöfnina í Alþingishúsinu í dag, að fáar þjóðir eigi í fari sínu slíkan auð, sem Íslendingar búi yfir. Því sé engin ástæða til örvænta og grípa til örþrifaráða þótt á móti blási um skeið.
Ólafur Ragnar sagði að þessar auðlindir væru einkum menntun þjóðarinnar, gróskurík menning, fiskistofnarnir á heimamiðum Íslendinga, búskapur í eigin landi, orkan í iðrum jarðar, tæra íslenska drykkjarvatnið og óspillt náttúra landsins. Þessar auðlindir gerðu Íslendingum alla vegi færi og leitun væri að þjóð með jafn drjúgan efnivið í framfarir.
„Ísland hefur aldrei fyrr haft slíka kjörstöðu í veröldinni né búið að jafn öflugum auðlindum. Hin nýja öld getur ótvírætt orðið okkar besti tími. Á þessum vegamótum tek ég með gleði í hjarta og hógværð í huga á ný við embætti forseta Íslands og heiti á landsmenn alla, fjær og nær, að taka höndum saman um heill ættjarðarinnar," sagði Ólafur Ragnar Grímsson.