Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna lýsir yfir vonbrigðum með nýútgefna umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um rekstur á nektardansstaðnum Goldfinger.
Í tilkynningu VG segir, að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi haft mikið að segja í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi allt frá því hann hóf störf, og þar með sýnt rannsóknum og reynslu af þessum málum skilning og tekið á þeim mark. Í fyrri umsögn sinni um Goldfinger hafi lögreglustjórinn lagst gegn leyfisveitingu en nú virðist sem hann hafi verið þvingaður til að breyta afstöðu sinni til málsins.
„Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna telur brýnt að koma í veg fyrir rekstur nektardansstaða sem hluta af baráttunni gegn hlutgervingu kvenna, gegn kynbundnu ofbeldi og fyrir jafnrétti kynjanna. Telji yfirvöld lögin ekki rúma að komið sé í veg fyrir rekstur sem sannanlega hagnast á að misnota eymd kvenna er nauðsynlegt að endurskoða login og tryggja að það sé unnt," segir í tilkynningunni.