„Ég stjórna hér,“ sagði Helgi Seljan til þess að stöðva svar Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra þegar sjónvarpsmanninum fannst viðmælandi sinn vera að tala sig framhjá því að svara spurningu sinni. Borgarstjóri þagnaði og Helgi hélt áfram að spyrja hvers vegna Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur hefði verið vísað úr skipulagsráði.
„Helgi kallaði mig í þáttinn á fölskum forsendum,“ segir borgarstjóri. „Ég sagði honum að ég myndi ekki bara ræða það að einum einstaklingi hefði verið skipt út í nefndum borgarinnar sem er alvanalegt mál og þarfnast ekki mikillar skýringar. Ég svaraði strax þeirri spurningu skýrt og skilmerkilega, en Helgi reyndi vísvitandi að teygja lopann.“
Borgarstjóri segir að af vondri reynslu hafi hann sett skilyrði um að nokkur mál borgarinnar yrðu rædd. Svo sem mál Listaháskólans í Reykjavík, uppbyggingu við Laugaveg og Bitruvirkjun.
Ólafur segist ekki hafa gert upp hug sinn um hvort hann gefi kost á sér í þáttinn aftur. „Mér finnst ansi hart að stofnun í almenningseign eins og Ríkisútvarpið skuli ganga fram með þeim hætti að borgarstjórinn í Reykjavík eigi ekki eðlilega aðkomu. Að honum sé ekki gefinn kostur á að ræða þau mál sem hann og sá meirihluti er starfar í borginni stendur fyrir.“
Þórhallur Gunnarsson segir það hafa legið fyrir hvaða þrjú mál yrðu rædd í þættinum. „Svo óskar Helgi eftir skýrari svörum og því var ekki tími til þess að koma inn á Bitruvirkjun,“ segir Þórhallur.