„Ljóst er að óánægja er á meðal sjálfstæðismanna vegna þessarar ákvörðunar og m.a. talað um ósamræmi með tilliti til Helguvíkur. En ef menn skoða úrskurðinn og hafa tímarammann í huga, þá er mikilvægt að átta sig á því, að þetta er ekki ákvörðun um að stöðva eða hætta við þetta mál,“ segir Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Hann telur að úrskurður umhverfisráðherra um að framkvæmdir í tengslum við álver á Bakka verði að fara í heildarumhverfismat hafi verið ónauðsynlegur, með tilliti til þess sem áður var komið fram hjá Skipulagsstofnun og öðrum.
Geir segir það stefnu ríkisstjórnarflokkanna að álverið við Bakka rísi. „Þó umhverfisráðherra vilji, eðlilega, láta kanna öll áhrif á umhverfið til hlítar, þá er það aðeins hennar sjónarmið. Ég vek athygli á því að margir, bæði þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar hafa ítrekað lýst áhuga sínum á að í þetta verkefni verði farið. Ég er mikill stuðningsmaður þess að verkefnið haldi áfram og það á við um okkur öll í Sjálfstæðisflokknum og mjög marga í Samfylkingunni. Nú þurfa allir sem að þessu máli koma að hraða málsmeðferðinni þannig að ekki þurfi að koma til óeðlilegar tafir.“
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu í dag að seinkunin verði í mesta lagi nokkrar vikur. Geir segir að ef það reynist rétt þá breyti ákvörðunin ekki miklu þegar upp er staðið. „Ég get ekki fullyrt það, en umhverfisráðherra telur að svo sé. Þá þarf að hafa í huga að tímaramminn er býsna víður. Það er verið að tala um að verksmiðjan geti tekið til starfa seint á árinu 2012 og verði komin í fullan rekstur árið 2015.“