Bleik og svört spjöld í drullunni

Mýrarbolti er ekki sérlega hreinleg íþrótt.
Mýrarbolti er ekki sérlega hreinleg íþrótt. mynd/bb.is

Sautján karlalið og níu kvennalið eru skráð til leiks í Mýrarboltanum 2008, sem hófst í morgun í Tunguskógi í Skutulsfirði. Búast má við að leikið verði fram undir miðjan dag.

Í fyrsta sinn í ár var námskeið haldið fyrir drulludómara mótsins og einnig voru ný spjöld tekin í gagnið. Gult spjald sýnir dómari leikmanni til viðvörunar fyrir gróft brot. Bleika spjaldið fær leikmaður sem meitt hefur annan leikmann og neyðist hann þá til að kyssa á „bágtið". Svarta spjaldið fær sá leikmaður sem brýtur illa af sér með kýlingum, spörkum, grófu peysutogi eða niðurrifi aftan frá, rænir annan leikmann upplögðu marktækifæri eða svívirðir og niðurlægir dómara eða vallarstarfsmenn.

Sá sem fær svarta spjaldið neyðist til að leika með hauspoka í 2 mínútur. Sá sem hauspokann ber verður að vera inni á vellinum, fari hann útaf kemur hann ekki aftur inná (nema hann fari óvart út af sökum slæms skyggnis).

Undanfarna daga hefur verið unnið að því að undirbúa mótsvæðið m.a. með því að vökva vellina svo þeir verði sem forugastir.  Mótið er nú haldið í fimmta sinn. Ísfirðingar kynntust íþróttinni í gegnum viðburðaskiptaverkefnið Usevenue sem Ísafjarðarbær er þátttakandi í.

Upphaf þessarar óvenjulegu íþróttar má rekja til skóglendis Norður-Finnlands þar sem er að finna talsverð mýrlendi sem myndast á auðum blettum í skóginum eftir að tré hafa verið höggvin. Á einu slíku svæði var byrjað að spila knattspyrnu á litlum velli. Í byrjun var þetta eingöngu til skemmtunar en þróaðist fljótlega yfir í keppni þar sem lítil mót voru haldin á svæðinu. Fyrir fjórum árum var byrjað að skipuleggja stærra mót í kringum þessa sérstæðu íþróttagrein sem í dag er orðið stór viðburður í Norður-Finnlandi.

Heimasíða Mýrarboltans 2008

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert