Hátíðin Ein með öllu á Akureyri hefur gengið mjög vel, bærinn er fullur af fólki og stemmingin indæl, segir Margrét Blöndal, talskona hátíðarinnar. Hún segir ómögulegt að segja til um hversu margir hátíðargestirnir séu, og „brosin eru óteljandi.“
Svipaða sögu hafði Magnús Ólafsson, talsmaður Síldarævintýrisins á Siglufirði, að segja. Þar gengur „ljómandi vel, majorkablíða, allir rólegir og afslappaðir.“ Mótshaldarar telja að gestir séu um þrjú þúsund.
Á Neskaupstað er Neistaflug, þar sem allt er í sóma og „sólin kemur bráðum og þá verða allir ánægðir,“ sagði Benedikt Stefánsson. Telur hann gesti ekki færri en í fyrra, er þeir voru um fimm þúsund.
Álfaborgarséns „fer rólega og vel fram,“ sagði Arngrímur Ásgeirsson. Hagyrðingar fóru þar á kostum í gærkvöldi, og hlýddu um tvö hundruð manns á þá. Segir Arngrímur að þótt hátíðin sé „ekki fjölmenn“ sé þar góðmennt, og í ljósi þess að um síðustu helgi hafi verið um tvö þúsund manns á svæðinu þyki mótshöldurum þetta „bara notalegt“ núna.